Kolefnisjöfnun á Villigötum?
Festa – Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni
Tómas N. Möller, formaður stjórnar
Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri
Efni: Deiglufundar Festu 25 október – Kolefnisjöfnun, hvernig jöfnum við og vottum?
Dags: 20 október 2022
Við undirrituð lýsum ánægju okkar með áhuga Festu á loftslagsmálum og tökum undir þá áherslu sem fram kemur í fundarboði að vanda þurfi til verka þegar hugað er að kolefnisjöfnun. Mikið er í húfi með að gæði séu tryggð, út frá mörgum sjónarmiðum og á öllum stigum allt frá undirbúningi verkefna til úttekta og vottunar.
Hvað varðar aðildarfélög Festu er mikilvægt að varðveita þá velvild og jákvæðu ímynd sem mörg þeirra njóta í tengslum við þátttöku í vörnum gegn loftslagsbreytingum. Í því ljósi viljum við benda á ýmsar skuggahliðar kolefnisjöfnunar með skógrækt sem eru það alvarlegar að þær gætu að óbreyttu snúið velvildinni upp í andhverfu sína.
Eins og fram kemur réttilega í fundarboði er mikilvægt að kolefniseiningar séu vottaðar trúverðugan hátt. Einmitt þess vegna voru alþjóðleg samtök stofnuð, International Carbon Reduction and Offset Alliance (ICROA) sem tryggja eiga að kolefniseiningar beri þann raunverulega árangur sem seldur er. Því miður er enginn íslenskur vottunaraðili enn sem komið er aðili að ICROA. Engu að síður er kolefnisbinding og -jöfnun auglýst söluvara á Íslandi, án þess að kerfi sé til staðar sem tryggir að allra hagsmuna sé gætt.
Hér á eftir eru talin upp nokkur þau atriði sem við viljum í fullri vinsemd benda Festu á að hafa í huga við alla umræðu um kolefnisjöfnun og -vottun:
- Staða vottunar
- Vandinn kristallast að vissu leyti í fundarboðinu, því þar er sú vinna sem unnin var á vettvangi Staðlaráðs Íslands túlkuð með þeim hætti að: „Fyrirtæki og loftslagsverkefni munu nú geta fylgt stöðluðum kröfum og viðmiðum til að kolefnisjafna sinn rekstur með trúverðuglegum hætti og/eða framleiða raunverulegar og vottaðar kolefniseiningar sem uppfylla alþjóðlegar kröfur og hægt er að selja..“.
- Hafa ber í huga að stjórnvöld hafa hvorki lagt fram þau fjölþættu viðmið sem þurfa að vera grundvöllur verkefna né mótað lögformlegar reglur um framleiðslu, vottun og skráningu kolefniseininga. Það er því enn langt í það að ábyrg vottun geti hafist.
- Rangar fullyrðingar „framleiðenda“ kolefniseininga
- Það er dapurlegt en undirstrikar stöðuna hve langt „framleiðendur kolefniseininga“ geta gengið í innantómri auglýsingamennsku:
–„Staðfesting í rafrænu formi fylgir alltaf með kaupum ásamt límmiða sem staðfestir að bifreiðin þín er græn í eitt ár!“
- Rangar fullyrðingar fyrirtækja og einstaklinga sem keypt hafa sér kolefnisjöfnun
- Svo virðist sem margir þeirra er greitt hafa fyrir gróðursetningu til kolefnisbindingar telji sig þar með hafa náð jöfnun milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu þeirra í lífræn efni. – „Við höfum kolefnisjafnað bílana okkar á þessu ári“ er eitt af fjölmörgum dæmum.
- Verra er þegar ljóst er frá upphafi að um er að ræða ranga staðhæfingu. Það á t.d. við um fyrirtæki sem horfir fram hjá því í sínu kynningarstarfi að það er skýrt tekið fram í samningi við framkvæmdaaðila að um sé að ræða vænta bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi á 50 árum og að binding fari hægt af stað:
– „Akstur allra nýrra ..bíla … er núna kolefnisjafnaður að fullu.“
Því miður vantar mikið á að unnt sé að sanna fullyrðingar sem þessa.
- Kolefnisjöfnun – veruleiki eða tálsýn
- Það er áhugavert að skoða auglýsingu frá sama aðila:
– „Allir nýjir …bílar… verða kolefnisjafnaðir út líftíma sinn.“
- Um er að ræða traustan og sparneytinn bíl og við gefum okkur það að árlegur akstur sé 20.000 km og líftími hans 18 ár, til 2040 en stjórnvöld hafa sett sér það markmið að þá skuli kolefnishlutleysi hafa verið náð. Á því herrans ári kemur hins vegar sú undarlega staðreynd í ljós að uppsafnað framlag viðkomandi bíleiganda til þessa markmiðs reynist aðeins hafa náð um 8% af þeirri bindingu sem hann hafði greitt fyrir. Undarleg „kolefnisjöfnun“ það!
- Sala á vöru sem ekki er til, eða aðeins að hluta
- Hugtakið skuldajöfnun hefur skýra meiningu í lögfræði- og viðskiptageiranum. Hugtakið kolefnisjöfnun hefur í eðli sínu sömu merkingu, hún verður ekki til fyrr en staðfest hefur verið að bindingin hafi átt sér stað.
- Markaðssetning kolefnisjöfnunar er vægast sagt villandi. Viðskiptavinirnir átta sig sjaldnast á því að þeir eru að kaupa þann fjölda trjáa sem þarf til að ná umsaminni bindingu á 50-80 árum. Segja má að greitt sé fyrir eins árs bindingu, stofnkostnað. Hin gróðursettu tré eiga síðan að uppfylla það sem á vantar á þessum langa.
- Verðlagningu er hægt að hagræða eftir lengd tímabila, um slíkt gilda engar reglur. Engin binding á sér stað fyrsta árið og er í heild sáralítil í upphafi, t.d. á venjulegum líftíma bíls. Í þessu ljósi er eftirfarandi fyrirsögn ekki beint í takti við veruleikann!
– „5000 tonn kolefnisbundin í ….skóginum 2022“
- Hernaður gegn landinu
- Til að undirbúa gróðursetningu eru víða notuð stórvirk tæki til að umbylta landinu. Afleiðingarnar eru fjölþættar, m.a. losun gróðurhúsalofttegunda vegna hröðunar á rotnun lífræns efnis sem annars er bundið í jarðvegi, skerðing á bindigetu þess gróðurs sem fyrir var og hætta á jarðvegsrofi. Taka þarf tillit til slíkra neikvæðra þátta með mati á kolefnisforða þess og mögulegri bindigetu áður en því er raskað, en slíkt virðist ekki gert.
- Tegundaval og önnur álitamál
- Þær stórvöxnu innfluttu tegundir trjáa sem mest eru notaðar til gróðursetningar munu valda stórfelldri umbreytingu á náttúru Íslands, lífríki og landslagi með keðjuverkandi áhrifum á fuglalíf, útsýni, aðdráttarafl fyrir ferðamenn o.m.fl.
- Sjálfsáning stafafuru, sitkagrenis og fleiri framandi trjátegunda mun fara stigvaxandi á næstu árum sem mun magna enn frekar upp áhrif þess hve víða er verið að gróðursetja þessar tegundir. Þær munu ógna líffræðilegri fjölbreytni íslenskrar náttúru. Engar kvaðir eru þó á ræktendum um að halda þeim í skefjum. Við viljum benda á að í Nýja Sjálandi og víðar er varið milljörðum króna í að hindra útbreiðslu þessara tegunda utan sérstakra ræktunarsvæða.
- Meðal annars er verið að gróðursetja í stórum stíl í hluta af besta akuryrkjulandi framtíðarinnar. Slíkt er í hróplegri andhverfu við sjónarmið aukins fæðuöryggis. Gróðursetning í framræst votlendi veldur losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli að skógurinn mun ekki ná að vinna upp skaðann innan tímaramma verkefna til kolefnisjöfnunar. Auk þess er mikið um gróðursetningu ágengra framandi trjátegunda í land sem er í framför og myndi í mörgum tilfellum binda jafnmikið kolefni og hinn gróðursetti skógur en með hagkvæmari hætti.
- Skuggahliðar skógræktar eru margar og hafa mikil áhrif. Það er því ekki nóg að fjalla um staðla til vottunar á kolefniseiningum út frá vexti trjáa. Það þarf mun meira til, ella verður vottunin markleysa.
Við viljum að lokum vekja athygli Festu á því að kolefnisjöfnun með skógrækt er ekki sjálfgefin töfralausn gegn loftslagsbreytingum. Þvert á móti er veruleg hætta á að með áframhaldandi einstrengislegum ákafa í skógrækt án viðunandi regluverks og aðhalds verði þessi leið til meiri skaða en gagns. Það á við gagnvart fjölþættum öðrum hagsmunum sem virðast hverfa í skugga einhliða umræðu um kolefnisjöfnun. Markmið okkar allra á fyrst og fremst að vera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, síðan vinna að kolefnisbindingu á ábyrgan og heildrænan hátt þar sem öllum skuldbindingum er fullnægt, þ.m.t. um verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Sala á kolefnisjöfnun má aldrei verða sala á aflausn sem frýar okkur ábyrgð frá öðrum skyldum á sviði sjálfbærrar þróunar.
- október 2022
Virðingarfyllst
Andrés Arnalds, f.v. fagmálastjóri Landgræðslunnar
Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi
Inga Svala Jónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands
Jón Gunnar Ottósson, f.v. forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands
Ólafur S. Andrésson, prófessor við Háskóla Íslands
Sigfús Bjarnason, f,v. deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun Evrópu
Sveinn Runólfsson, f.v. landgræðslustjóri
Trausti Baldursson, f.v. deildarstjóri á Náttúrufræðistofnun Íslands
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands
Viðauki
Stórvirk tæki hafa víða verið notuð til að undirbúa land til skógræktar. Rask vegna ræktunar er alþjóðlegt vandamál og veldur losun á gríðarlegu magni gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Það mun taka hin gróðursettu tré mörg ár að vinna upp tap kolefnis og áhrif skertar getu náttúrulega gróðursins til að binda kolefni.
Mynd: Borgþór Magnússon
Lyngdalsheiði.
Mynd: Tómas Grétar Gunnarsson
Ólíkt hafast þjóðir að. Vinsælasta trjátegundin til gróðursetningar á Íslandi er skilgreind sem alvarlegt illgresi í Nýja Sjálandi og skal upprætt utan skilgreindra ræktunarsvæða