Frumvarp til laga um vindorku – Umsögn 23. janúar 2024

Trausti Baldursson

Samráðsgátt – Mál nr. S-1/2024

Hafnarfjörður 23. janúar 2024 /TB

 

Efni: Frumvarp til laga um vindorku

Vísað er til máls nr. S-1/2024 í samráðsgátt stjórnvalda þar sem gefinn er kostur á að veita umsögn um drög að frumvarpi til laga um vindorku. Hér fyrir neðan eru fyrst nokkur áminningarorð um gildi íslenskrar náttúru þó sérstaklega m.t.t. áhrifa vindorkugarða. Undirrituðum er fullkomlega ljóst að flest af því sem kemur fram hér að neðan er vel þekkt en svo virðist þó samt að undanfarið sé meira hlustað á sífelldan barlóm þeirra sem vilja reisa vindorkugarða í gróðaskyni en bera fyrir sig orkuskipti og græna orku. Þess vegna áminningarorð.

Inngangsorð:

Undirritaður vill leggja áherslu á nokkur almenn atriði sem ávallt ber að hafa í huga þegar fjallað er um vindorku og vindorkugarða. Í fyrsta lagi, eins og öllum ætti að vera ljóst, munu sjónræn áhrif vindorkugarða hvort sem er með fáum eða tugum vindmylla/vindorkumannvirkja brjóta blað í sögu Íslands hvað varðar upplifun af landinu og náttúrufari þess.

Landið, sérstaklega landslagið, er hluti af menningu okkar og sál. Með komu umfangsmikilla og minni vindorkugarða, ef af verður, mun það breytast frá því að vera að miklu leyti ómanngert yfir í að vera líkara ,,iðnaðarhverfi“.

Hér á landi er vítt til veggja og skyggni oft afburða gott og víðsýni því mikið. Sjónræn áhrif vindmylla verða mikil og ná langt út fyrir landareignir og sveitarfélagsmörk. Hvorki landeigendur, sveitarfélög og/eða þá ríkið eiga upplifun þjóðarinnar af landinu og eiga því ekki að geta eignað sér og ráðskast með þau miklu neikvæðu áhrif á víðerni og landslag sem vindorkugarðar munu hafa ef ekki er rétt á haldið. Vegna sérhagsmuna hafa bæði sveitarfélög og landeigendur ítrekað sýnt verulegan skort á dómgreind þegar kemur að því að huga að náttúruvernd. Nægir hér að nefna með almennum hætti sjókvíaeldi, ýmsar tillögur um vegagerð (nú síðast tillögur um að þvera Vatnsfjörð/friðland), skógrækt o.fl. Stofnanir ríkisins hafa ekki heldur haft manndóm í sér til að tryggja að lögum um náttúruvernd sé fylgt eftir og nægir hér að nefna nýleg dæmi um fyrirhugaða uppbyggingu, án fyrirhyggju, í friðlandi að Fjallabaki  og linkind vegna dreifingu framandi ágengra tegunda bæði í hafi (sjókvíaeldi) og og á landi (skógrækt).  Sem betur fer hafa sum sveitarfélög staði í lappirnar þegar á reynir.

Sífellt meiri óánægja er að verða með vindorkugarða víða erlendis jafnvel þegar þeir eru í hafi og engin ástæða er til að ætla að óánægjan verði minni hér á landi. Vindorkugarðar hafa ekki sem slíkir t.d. leitt til lægra orkuverðs í Evrópu heldur hafa eigendur þeirra nýtt sér hærra gas og olíuverð til að hækka verð á sinni vöru bara af því að þeir geta það vegna eðli raforkuviðskiptakerfisins í Evrópu. Ekki hefur vindurinn sjálfur hækkað í verði enda ókeypis sem slíkur!! Hvað gerist hér á landi ef eigendur vindorkugarða, væntanlega í einkaeign eins og stefnt er að, hugsa um það eitt að græða sem mest en hafa um leið eyðilagt hjartað og kjarnan í íslenskri náttúru, landslagið, víðsýnina og víðernin.

Víða erlendis er farið að reyna að kaupa fólk til að samþykkja vindorkugarða. Er það þá gert með því að hygla nærsamfélögum á einhvern hátt. Vel er þekkt hér á landi hvernig ákveðin sveitarfélög hafa miklar tekjur, t.d. vegna fasteignagjalda, en önnur ekki þó neikvæð áhrif nái þangað. Skaðbætur eru eitt en að kaupa samþykki ákveðins hóps landsmanna til framkvæmda sem eyðileggja, t.d. landslag, langt út fyrir t.d. stjórnsýsluleg mörk sveitarfélaga er önnur saga, það mætti kalla mútur. Undirritaður varar við því að þessi leið sé farin á Íslandi.

Undirritaður hefur ekki séð aðrar upplýsingar en þær að ekki hefur dregið verulega úr losun kolefnis út í andrúmsloftið í Evrópu þrátt fyrir vindorku. Töfralausnin hér á landi byggir því ekki á vindorku enn sem komið er, og kannski aldrei, því enn er nóg af virkjunarkostum í nýtingarflokki sbr. rammaáætlun. Og enn má nýta orku mun betur en gert er eins og margoft hefur verið sýnt fram á og þarf því ekki að gera hér.

Í öðru lagi ber að varast að nota í sífellu ,,græna“ orku vindorkugarða sem afsökun fyrir því að reisa þá. Orkan er ekki græn í þeim skilningi ef framleiðsla hennar eyðir bæði fallegu landslagi eða að vindorkugarðar eru settir niður á svæði sem eru mikilvæg vegna annarrar náttúru s.s. mikilvæg fuglasvæði o.s.frv. Vel er þekkt hvernig t.d. vindorkugarður á eyjunni Smøla í Noregi hefur drepið fjölda hafarna.

Vindorka leysir engin lofslagsvandamál ef hún er notuð t.d. í mengandi/kolefnislosandi iðnaði og þá er vatns- eða jarðvarmaorka í það minnsta jafn góð eða betri ef rétt er á haldið. Og eins og áður segir er enn sem komið er fjöldi virkjanakosta í nýtingarflokki, það liggur því ekkert á. Og svona rétt til að minna á það að þó að vissulega sé betra fyrir andrúmsloftið að nota raforku á bílaflotann hér á landi þá skilur framleiðsla rafbíla eftir sig ýmisleg neikvæð spor.

Í þriðja lagi má nefna skort á innviðum. Það fara ekki alltaf saman hugmyndir um staðsetningu vindorkugarða og geta eða staðsetning raforkuflutningskerfisins og það er einnig svo að vegagerfi landsins er oft mjög óhagstætt til flutnings á efni í vindmyllur. Á þá almenningur að borga breytingar á innviðum, sem líka hafa áhrif á náttúruna, bara til að þóknast sérhagsmunum eigenda vindorkugarða?

Hér á eftir ery gerðar athugasemdir við sjálft frumvarpið og þá við hverja grein fyrir sig:

 

  1. löggjafarþing 2023–2024. Þingskjal x — x. mál. Stjórnarfrumvarp.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku).

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

  1. gr.

Á eftir 4. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur nýr töluliður sem verður 5. tölul., svohljóðandi:

Vindorka: Nýting vinds til framleiðslu á orku.

Engin athugasemd.

  1. gr.

Fyrsti málsliður 3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn skv. 8. gr. hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira eða vindorkumannvirki í hæstu stöðu yfir 100 metra að hæð.

Athugasemd: Enn og aftur eru sett stærðarmörk inn í lög þ.e. stærðarmörk sem ein og sér hafa ekkert raunverulegt gildi á bak við sig. Hér þarf t.d. vindmylla/vindorkumannvirki í hæstu stöðu að vera hærri en 100 m, hærri en Hallgrímskirkjuturn. Vindorkumannvirki sem er 25 metra hátt eða 50 metra hátt getur haft jafnmikil áhrif á ákveðið landslag eða sérstakt fyrirbrigði í náttúrunni og 100 metra vindorkumannvirki. Svona mörk kalla á ,,svindl“ rétt eins og iðulega er svindlað á mörkum í mati á umhverfisáhrifum.

Undirritaður er ekki með beina tillögu að orðalagsbreytingu en leggur til að öll vindorkumannvirki séu tilkynnt til verkefnisstjórnar og það sé hennar að ákveða hvaða hugmyndir um vindorkumannvirki séu teknar með og hverjar ekki. Sjaldnast má búast við að vindorkumannvirki samandstandi af einni vindmyllu ef svo má að orði komast. Það er t.d. vel þekkt í landi eins og Danmörku, sem mikið til á enga raunverulega villta náttúru á landi og enn síður í dag, að það standa nútíma vindmyllur/vindorkumannvirki hér og þar þó vindorkugarðar hafi tekið yfir. Einstök vindorkumannvirki eru ekki til bóta fyrir íslenskt landslag þó vel megi búa við vindorkumannvirki af skynsamlegri stærð til eigin nota.

  1. gr.

Síðasti málsliður 3. mgr. 3. gr. orðast svo: Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur ekki til landsvæða í A-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög um náttúruvernd nema tiltekið sé í frið­lýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði, auk þess sem áætlunin tekur ekki til svæða á B-hluta náttúruminjaskrár, svæða innan marka friðlýstra menningarminja, svæða á heimsminjaskrá UNESCO, auk svæða sem tilnefnd hafa verið á skrána, Ramsar-svæða og svæða innan marka miðhálendislínu eins og hún er skilgreind í landsskipulagsstefnu, þegar um er að ræða virkjunarkosti til nýtingar vindorku.

Athugasemd: Undirritaður fagnar mjög þessari viðbót við 3. gr. laganna. Þessi viðbót hefur þó sína alvarlegu annmarka enn sem komið er. Í fyrsta lagi kannast undirritaður ekki við að Alþingi og þær stofnanir og ráðuneyti sem fara með náttúruminjaskrá hafi skilað af sér tillögum á B-hluta náttúruminjaskrá. Tillögum Náttúrufræðistofnunar Ísland um svæði á B-hluta var skilað til umhverfisráðuneytisins árið 2018, lesist 2018, síðan eru liðin 5 ár. Ef B-hlutinn er ekki til hvað þýðingu hefur þá lagagreinin. Þessu tengt er að B-hluta tillögurnar voru unnar til að leggja fram framlag Íslands í net verndarsvæða inn í Emerald Network, sem er hluti af Bernarsamningnum, sem m.a. NATURA 2000 Evrópusambandsins er hluti af. Þessar tillögur snerust fyrst og fremst um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og einnig að hluta um jarðfræði. Enn á eftir að fullvinna tillögur um t.d. landslag. Á það verður að benda að það eru láglendissvæði sem eru hvað mikilvægust fyrir lífríki, þ.e. þar sem gert er ráð fyrir vindorkumannvirkjum.

Hér verður ekki farið mikið nánar út í þessi atriði en það vantar enn formlegan grunn fyrir B-hluta náttúruminjaskrá, nema að drifið sé í að staðfesta öll svæði á náttúruminjaskrá sem B-hluta, það vantar einnig að nefna Bernarsamninginn sem í raun er sá samningur sem er skuldbindandi hvað varðar vernd líffræðilegrar fjölbreytni og styður við samninginn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni í Evrópu og heims markmið SÞ. Einnig vantar að tilnefna mun fleiri svæði sem Ramsarsvæði enda fjöldi svæða sem uppfylla viðmið sem Ramsarsvæði. Það síðast nefnda má þess vegna keyra saman með tillögum um net verndarsvæða i samræmi við Bernarsamninginn.

Islensk stjórnvöld, svo það sé sagt berum orðum, eru sér til skammar hvað varðar framangreinda þætti í vernd Íslands. Það eru því til fullt af gögnum, byggð á vísindalegum grunni, um mikilvæg svæði sem þó eru ekki formlega staðfest af Alþingi.  

  1. gr.

Fyrsti málsliður 1. mgr. 7. gr. orðast svo: Verndar- og orkunýtingaráætlun er bindandi við gerð skipulagsáætlana nema um sé að ræða virkjunarkosti til nýtingar vindorku.

Athugasemd: Undirritaður telur að hér þurfi meira kjöt á beinin. Það er vel skiljanlegt að vegna eðli vindorkunnar þ.e. að staðsetning virkjunarmannvirkja geti verið nánast ,,hvar sem er“ þá sé þetta skilið eftir opið gagnvart sveitarfélögum. Á hinn bóginn má  gera ráð fyrir að í ,,rammaáætlun“ sé verið að fjalla um ákveðnar hugmyndir en ekki heil sveitarfélög lögð undir sem einn stór virkunarkostur. Auk þess þarf mun skýrari ákvæði um hvort annar almenningur en sá sem í sveitarfélaginu býr geti haft áhrif á virkjanahugmyndir sem fyrirhugaðar eru á svæðum sem eru t.d. annað hvort innan þjóðenda (eigu ,,allra“ en ekki innan miðhálendislínu) eða eru á svæði sem í almennum skilningi tilheyra þjóðinni allri en hafa ekki notið formlegrar verndar.

Hvert er samhengi þessarar breytingar og 2. mgr. 7. greinar?

  1. gr.

Á eftir 2. málslið 1. mgr. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi:

Við mat og tillögur um flokkun virkjunarkosta í vindorku skal verkefnisstjórn jafnframt horfa til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um vindorku þar sem gerð er grein fyrir helstu forsendum fyrir nýtingu vindorku til orkuframleiðslu.

Athugasemd: Ekki eru gerða athugasemdir við þessa grein að sinni enda hefur undirrituðum ekki unnist tími til að fara vel yfir framangreinda þingsályktunartillögu. En áskilur sér auðvitað rétt til að gera það á síðari stigum þessa máls.

  1. gr.

Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sérstök málsmeðferð tiltekinna virkjunarkosta í vindorku í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis.

Við mat á virkjunarkostum í vindorku skal verkefnisstjórn kanna hvort einstakir virkjunarkostir uppfylli eftirfarandi skilyrði:

  1. Virkjunarkosturinn komi til með að vera liður í því að ná markmiðum Íslands við orkuskipti og kolefnishlutleysi.
  2. Virkjunarkosturinn er innan landsvæðis sem almennt telst vera raskað af mannlegum athöfnum.
  3. Virkjunarkosturinn er ekki talinn rýra um of mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem njóta verndar að lögum né annarra nærliggjandi svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru-, menningarminja eða tengdrar atvinnustarfsemi.
  4. Virkjunarkostur er ekki á svæði þar sem mikið er um villta fugla sem metnir eru í hættu eða verulegri hættu á válistum eða fuglategundir með hátt eða mjög hátt verndargildi að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Uppfylli virkjunarkostur skilyrði þessarar greinar að mati verkefnisstjórnar skal hún birta opinberlega drög að slíkri niðurstöðu og veita almenningi, félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum hagaðilum átta vikna frest til að koma að athugasemdum við hana. Að loknum fresti skilar verkefnisstjórn ráðherra niðurstöðum sínum ásamt framkomnum athugasemdum.

Telji ráðherra eftir skoðun á niðurstöðu verkefnisstjórnar og framkomnum athugasemdum að virkjunarkosturinn uppfylli skilyrði greinarinnar getur hann tekið ákvörðun um að virkjunarkosturinn sæti ekki frekari meðferð innan verndar- og orkunýtingaráætlunar en sé vísað til ákvörðunar hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum sem þá taka afstöðu til veitingar leyfis tengdu orkuvinnslu að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

Fallist ráðherra hins vegar ekki á að virkjunarkosturinn uppfylli framangreind skilyrði fer um málsmeðferð hans eins og um aðra virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun samkvæmt lögum þessum.

Athugasemd: Þessi grein er greinilega sett til að geta flýtt fyrir. Greinin orkar hins vegar tvímælis. Hér er það sett í hendur á ráðherra að ákveða hvort virkjunarkostur fari áfram án ítarlegrar heildstæðar skoðunar í samhengi við aðra kosti, bæði hvað varðar náttúru og hagkvæmni o.s.frv. Greinin ber með sér að það sé eins og það liggi eitthvað voðalega á að reisa vindorkugarða umfram aðrar virkjanir sbr. fyrrnefndan barlóm. Undirrituðum lýst almennt vel á þau viðmið sem sett eru fram í greininni en af fenginni reynslu hafa skýrslur, framkvæmdaraðila, um ,,ágæti“ virkjunarkosta og annarra framkvæmdakosta verið mjög oft hlutdrægar, framkvæmdinni í vil. Það er því spurning hvort ekki eigi að gera þá kröfu að gögn/skýurslur sem lög eru til grundvallar að könnun verkefnisstórnar séu fengin frá hlutlausum aðilum sem ekki eru valdir af framkvæmdaraðila. Hér má t.d. hugsa sér að verkefnisstjórn þurfi að samþykkja þá aðila sem koma að gerð skýrslna um viðkomandi virkjun skv. 6.gr. Ef þetta er ekki gert vofir alltaf yfir að viðkomandi ráðherra hlusti aðeins á sína eigin sannfæringu. 

  1. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin koma til framkvæmda þegar þingsályktun skv. 1. mgr. 10. gr. hefur verið samþykkt á Alþingi.

 Ákvæði til bráðabirgða.             

Ákvæði laga þessara skulu endurskoðuð með tilliti til reynslu af framkvæmd þeirra eigi síðar en innan fjögurra ára frá því að þau koma til framkvæmda.

Athugasemd: Undirritaður telur þetta ákvæði skynsamlegt.

Virðingarfyllst,

Trausti Baldursson