Hugrenningar um sitt lítð af hverju og sjálfsheimsku manna
Trausti Baldursson
Hugrenningar um sitt lítið af hverju og sjálfsheimsku manna:
Iðjagræn orka-loftslagaaðgerðir, kolefnisjöfnun, landfyllingin í Skerjafirði og brot um spillingu í stjórnsýslu landsins.
Græn orka
Hvað skyldu þessi mál hafa sameiginlegt. Jú þau er gott dæmi um hvernig stjónmálamenn, ,,lobbíistar“ og allskonar meðreiðarsveinar og sveinkur, sérstaklega innan ríkisstofnana og framkvæmdageirans, hoppa á töfralausnir og orðagjálfur. ,,Lausnir“ og hugmyndir sem á að nota til að selja ákveðnar framkvæmdir eða aðgerðir sem jafnvel eiga að bjarga heiminum. Að minnsta kosti Evrópu t.d. með flutningi á rafmagni um sæstreng. Ísland er svo rosalega best.
Nú er græn orka orðið lausnarorið, stóra hugmyndin, til að virkja hratt og mikið. Bjarga loftslagmálum heimsins og kolefnisjöfnunar- og hlutleysis markmiðum íslenskra stjórnvalda og okkar hinna. Orkuskipti eru svo annað orð sem fylgir oftast með grænu orkunni. Sem sagt, nú er tónninn orðinn sá hjá talsmönnum virkjanaframkvæmda að allt sé leyfilegt í virkjunarmálum af því að þá björgum við lofslagsvandanum. Ég ætla ekki hér að fjalla um hvað mikið þarf að virkja miðað við þessar eða hinar forsendurnar, það hafa aðrir tekið að sér, og má t.d. benda á nýlegt kynningarblað Orkugreirans ,,Orka Íslands“ í Fréttablaðinu 29. janúar sl. og vandaða grein Auðar Önnu Magnúsdóttur / Landvernd í Kjarnanum 3. janúar sl. sjá hér https://kjarninn.is/skodun/nyir-timar-i-orkumalum-ny-taekifaeri/ . Í þessum pistli vil ég meira ræða hvað raunverulega býr að baki þeirra hugmynda og orða sem eru notaðar af ýmsum til að ná fram markmiðum sínum. Sum hver örugglega af góðum hug en önnur af eintómum eiginhagsmunum eða með öðrum orðum græðgi eða með fínna orðalagi ásókn í fjárhagslegan ávinning.
Til að fyrribyggja allan misskilning þá gerir undirritaður sér fulla grein fyrir loftslagsvandanum og að hann þurfi að leysa og þar skipta orkumál mjög miklu þ.m.t. orkuskipti. Það er bara ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir.
Hvað er græn orka?
En hvað er græn orka sem er svo iðjagræn að af henni stafar engin hætta. Bara nota nógu andskoti mikið af henni þá er allur vandinn leystur. Þannig hljóma nýju upphrópunarskilaboðin í dag! Einfaldasta skilgreiningin á grænni orku er að það er orka sem hægt er að vinna og nota án þess að um leið losni koltvísýringur út í andrúmsloftið (hér eru notuð ákveðin viðmið). Þetta vita svo sem allir sem vilja vita það, en verður orkan græn af þessu einu saman, græn í skilningnum góð, vistvæn o.s.frv? Einfaldasta svarið er nei það er langt því frá að það sé sjálfgefið.
Græn orka er sem sagt yfirleitt notuð um sólarorku, vindorku, vatnsorku og jarðvarmaorku, einnig t.d. sjávarfallaorku, en hér ætla ég eingöngu að koma inn á fjóra fyrstu orkugjafana. Fyrir það fyrsta er reginmunur á annars vegar sólar- og vindorku og svo vants- og jarðhitaorku þegar kemur að enn öðru hugtaki eða orðasambandi sem notað er í síbylju með hugtakinu græn orka. Það er endurnýjanleg orka. Talsmönnum, gervinálgunar, sem ég ætla að leyfa mér að kalla svo, við lausn vandamála t.d. loftslagsvandans, nota sem sagt oft saman orðin græn orka, endurnýjanleg orka og svo orkuskipti eða hvað það nú er sem nota á orkuna í. Með gervinálgun á ég við einstaklinga eða t.d. verktakafyrirtæki eða stjórnmálamenn sem notfæra sér þessi hugtök beinlínis til að vinna sínum eigin hagsmunum fylgi. Ýmist til að öðlast fjárhagslega ávinning eða atkvæði eftir því hvað klukkan slær á hverjum stað.
Við getum skilgreint sólar- og vindorku sem raunverulega endurnýjanlega orkugjafa í þeim skilningi að við getum sótt orku þangað svo lengi sem sólin skín og vindar blása. Við getum í raun sótt ótakmarkaða orku í ótakmarkaðan tíma ef tæknin leyfir. Þannig er það alls ekki með vants- og jarðvarmaorku þó að sífellt sé látið að því liggja. Notkun vatnsorku er eins og allir vita, ekki síst nú, háð verðurfari og vatnafari hvers lands og þannig verða til náttúruleg takmörk um hvað mikið er hægt að nýta. Jarðhitaorkan, sem vissulega má segja að sé að einhverju leyti ótakmörkuð í iðrum jarðar, er háð því hvað mikið verður til af henni á tilteknum svæðum og hvort aðstæður og tækni leyfa okkur að nýta hana. Og svo ekki síst hve hratt hún endurnýjar sig miðað við notkun jarðhitans. Jarðhitaorkan færir sig einnig til, minnkar eða eykst og þó hún sé til staðar þá er oft tæknilega erfitt að nýta hana.
Nú ef það vantar orku, m.a. til að leysa loftslagsvandann, á þá ekki bara að virkja meira sérstaklega græna orku? Þarna er það sem það þarf að fara að meta hversu iðjagræn blessaða græna orkan eiginlega er.
Mér vitanlega er ekki hægt að nota þá orkugjafa sem hér eru nefndir án þessi að til þess þurfi að nota land- eða hafsvæði og af hljótist ýmis áhrif. Og þá er ekki lengur víst að orkan sem á að nota til að leysa loftslagsvanndann sé eins græn og af er látið. Koltvísýringur í andrúmslofti er ekki eina vandamálið sem vistkerfið jörð á við að etja. Eyðilegging líffræðilegrar fjölbreytni jarðarinnar var löngu komin til áður en loftslagvandinn varð alþekktur þó neikvæð þróun loftslags og lífríkis hafi haldist í hendur. Í sinni einföldustu mynd er þessi neikvæða þróun afleyðing iðnbyltingarinnar og heimsku og ofneyslu manna. Eyðing náttúrulegra vistkerfa, tegunda og búsvæða þeirra er því upprunalega ekki tilkomin vegna gróðurhúsaáhrifa þó þau muni örugglega hafa þar veruleg áhrif á ef ekkert er að gert. Eyðilegging vistkerfa verður því ekki eingöngu lagfærð með baráttu við lofstalgsvandann. Því miður.
En aftur að orkugjöfunum. Mengun hlýst af framleiðslu sólarsella og þær taka mikið pláss ef framleiða á sólarorku í stórum stíl, sem mun varla skipta mikli máli hér á landi í nánustu framtíð. Vindorkugarðar taka gríðarmikð pláss, ,,rústa“ yfirleitt landslagi svo ekki sé talað um víðernum ef þannig svæði veljast til staðsetningu þeirra og geta haft áhrif á lífríki t.d. fuglalíf og því alls ekki sama hvar þeim er niðurkomið. Vindorkugarðar munu því breyta landslagi frá því að vera ,,náttúrulegt“ yfir í tæknilandslag, manngert landslag. Það er breyta hjartanu í upplifun okkar af Íslandi. Þannig að þar sem slík umskipti verða þá er varla hægt að tala um græna orku nema í einum skilningi. Það er bara ekki nóg.
Vatnsorkuna þarf varla að ræða í þessu landi virkjanrifrildis. Það hefur verið lagt til að sökkva Þjórsárverum, Kárahnjúkavirkun er veruleiki, Mývatns- og Láxárdeiluna þekkja allir o.s.frv. o.s.frv. Ekki allt iðjagrænir kostir, er það?
Jarðhitavirkjunarkostir eru oft á mjög viðkvæmum svæðum hvað varðar landslag og jarðminjar. Vert er að muna að háhitasvæði á Íslandi eru t.d. ekki nema í kringum 20 á öllu landinu, eftir því hvernig er talið, og stór hluti þeirra nú þegar nýttur. Hver vill eyðileggja friðland að Fjallabaki með jarðhitavirkun nú eða vindorkugarði. Jarðhitaavirkjanir losa einnig koltvísýring, brennistein og ýmis önnur efni sem valda mengun.
Og svo þarf auðvitað að huga í hvað orkan er nýtt. Eiga íslendingar t.d. að bjóða fleiri álverum eða annari mengandi stóriðju hingað bara á þeim forsendum að hér sé notuð græn orka. Og röksemdafærslan oftast sú að ef við seljum ekki græna orku til stóriðju þá muni aðrir selja jarðefnaeldsneytis orku sem verður notuð og loftslangsvandinn eykst. Er þetta svona einfalt og halda svona vitleysis rök. Nei, það eru öll lönd að reyna að draga úr losun koltvísýrings og auka framleiðslu á, já einmitt, grænni orku. Það besta sem Ísland getur lagt fram til loftslagsvandans er í raun og veru sáraeinfalt þ.e. að miða allt frá A til Ö í orkuvinnslu og orkunýtingu við að virkja aðeins það sem veldur ekki skaða á íslenskri náttúru og nota orkuna í framleiðslu sem ekki veldur mengun/ koltvísýringslosun. Auðvitað er þetta ekki alveg svart og hvítt en að hafa þetta megin prinsipp að leiðarljósi er einfalt þó lausnirnar séu oft snúnar. Virkjunarkostir á Íslandi eru því alls ekki allir sem einn iðjagrænir og alls ekki sama í hvað orkan er nýtt.
Hver eru svo vandræðin í dag. Stjórnmálamenn í öllum flokkum, mismikið að vísu, en ekki síst núverandi ríkisstjórn, maður veit ekki lengur hvaða hlið á henni, ætla að missa sig í því að vera gáfuð um það hvað er best fyrir okkur hin. Virkja meira, orkuskipti, minni losun á koltvísýring og allt verður gott og iðjagrænt í framtíðinni. Orkumálastjórastýran virðist þó koma með skynsöm innlegg í umræðuna þegar virkjanavindarnir fara að blása í stormstyrk og þar yfir. Ferskir vindar þaðan.
Mín skilaboð eru þessi; notum áfram Rammaáætlun, og önnur núgildandi lög, til að vega og meta virkjanarkosti, þar eru nú þegar margir kostir í nýtingarflokki, og hættið svo þessu væli. Þetta væl á fyrst og fremst við ýmsa svokallaða athafnamenn og stjórnmálamenn sem geta bara ekki skilið að ákvarðanir um skynsamlega nýtingu jarðarinna tekur tíma og að það þarf að hægja á neyslu og það þarf að hægja á græðgi. Á endanum er engin önnur lausn.
Nú vilja sumir reisa vindorkugarða út um allt og það má alls ekki taka tíma að koma þeim upp eða hugsa um hvar þeir eigi að vera. Jón Krónuson fær Vindorkugarðshugmynd og það á ekkert að koma í veg fyrir hana af því að Jón Króna er að bjarga heiminum með iðjagrænni orku. En staðsetningu vindorkugarða á að leysa í Rammaáætlun þó hægt sé að móta nýjar vinnureglur við undirbúning þeirra kosta.
Orkuskipti og rafmagnsbílar.
Það er ekki eðlileg stefna að það sé sjálfgefið að allar fjölskyldur eigi tvo, þrjá eða fjóra bíla. Framleiðsla rafmagnsbíla er langt því frá vistvæn og kolefnisspor framleiðslunnar það mikið að þeir eru ekki endilega loftslagsvænir nema að þeir séu knúnir með, hlustið nú vel, grænni orku. Og þá á auðvitað að miðað við alvöru græna orku, ekki plat iðjagræna orku. Svo þarf, þó þessi skrif fjalli eiginlega ekki um það, fara að hugsa um á hverjum bitna orkuskiptin og loftslagsvandinn mest, varla þeim efnameiri. Tökum sem dæmi um græna skatta á jarðefnaeldsneyti. Það bitnar t.d. fyrst og fremst á ferðafrelsi þeirra ,,fátæku“. Þau sem þéna mikið og mest er nákvæmlega sama um þó þau þurfi að nota 20 eða 60 þúsund krónum meira í orkugjafa á mánuði eða ekki. Er ekki miklu eðlilegra að setja t.d. takmörk á hvað má keyra mikið á bensín og dísel bílum (þetta er auðvelt með nútíma tækni), takmarka hvað má eiga marga bíla, lækka verð á rafmagnsbílum svo allir geti eignast þá, gera sektir vegna umferðarlagabrota tekjutengdar o.s.frv o.s.frv. Kannski er þetta eitthvað sem þessir rosalegu vinstri og grænu ættu að berjast fyrir. Hér eru VG fyrst og fremst skammaðir því það var og er einskis að vænta af hinum flokkunum teimur í ríkisstjórn. Framsókn og sjálfstæðismenn hafa aldrei hugsað um neitt annað en bakendann á sjálfum sér og sínum. Velferðakerfið hefur þó neitt alla flokka til að opna aðeins fyrir þann vitsmunahluta heilans sem snýr að samfélagsmálum en þó yfirleitt aldrei nema í neyð og ef það gæti hugsanlega opnað fyrir ónauðsynlega einkavæðingu. Dveljum ekki við það.
Síðasta útspilið í stjónmálamannaspillingu, og snýr ekki beint að orkumálum en að hugarfari valdhafa, var að vængstífa ríkisendurskoðanda, sem um leið vængstífði sjálfan sig. Ekki vitni um mikla dómgreind ríkisendurskoðanda að þiggja boðið. Það á að krefjast afsagnar viðkomandi ráðherra og ríkisendurskoðandi á ekki að eiga afturkvæmt í það embætti. Þetta minnir mig á þegar að ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, æðsti embættismaður ráðuneytisins, var lengi vel einnig formaður Skógræktarfélags Íslands sem tengist mjög umhverfismálum. Þetta var ekki formennska í saumaklúbb. Vitleysan er ekki öll eins. Nú er ég kominn langt út fyrir efnið, og þó.
Það á ekki að fórna íslenskri náttúru hvorki mikilvægu lífríki, landslagi, víðernum eða jarðmyndunum til þess ,,eins“ að halda neyslu þjóðfélagsins á sama stigi og hún er í dag eða auka hana. Ef málið snýst um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda þá gerum við það án þess að fórna framangreindum gæðum. Það þarf að meta hverja ,,loftslagsaðgerð“ út frá heildrænni sýn á hvert mál fyrir sig. Framleiðsla rafmagnsbíla, eins og komið er inn á hér að framan, er t.d. alls ekki laus við kolefnisspor og heildar ávinningur fer mikið eftir því hvaða orka er notuð til að knýja þá. Þar stöndum við betur að vígi en margur. Það breytir hins vegar engu um það að margir virkjunarkostir eru þess eðlis að þar er ekki hægt að tala um græna orku og þá á ekki að nota þá í orkuskipti, svo einfalt er það. Förum að tala um hlutina af raunsæi en ekki eilífri sýndarmennsku. Græn orka er þá orka þar sem hvorki öflun orkunnar eða notkun hennar hefur neikvæð áhrif hver svo sem þau eru. Það er svo stigsmunur á hvað er endurnýjanleg orka og hvað ekki. Sólin færir sig varla úr stað næstu hundrað eða þúsund milljón árin, eða svo segja þeir klóku, og vindar blása enn, en nýtingarmöguleikar vatnsaflsorku og jarðvarma taka sífelldum breytingum jafnvel á milli kynslóða og þörfin verðu áfram svo orkan er ekki eingöngu eign núlifandi fólks. Svo má ekki gleyma í hvaða vitleysu við notum orkuna.
Skyndi kolefnisjöfnun
Svo er ekki annað hægt en að benda á þessa sjálfsheimsku sem felst í því að kolefnisjafna almennar flugferðir og bílferðir einstaklinga með því að borga fyrir gróðursetningu trjáa á beinsínstöðvum og við flugmiðakaup. Áróðurinn er þannig að það er rétt eins og að jöfnunin eigi sér stað um leið. Við förum í flugferð til útlanda losum svo og svo mikið koltvísýring og svo er bara allt bundið þegar við komum heim. Flott það. En á þessu eru ýmsar hliðar.
Við svona skógræktarkolefnisjöfnunaraðgerðir eru oftast plantað í þegar gróið land og notaðar framandi tegundir, þó einnig birki t.d. Hekluskógar, sem hafa áhrif íslenska náttúru. Sérstaklega náttúrulega líffræðilega fjölbreytni landsins. Er lífríki Íslands svo ómerkilegt að því má breyta hvernig sem er og af hvaða ástæðum sem er? Eitt er nefnilega að viðhalda náttúrulegum skógum jarðarinnar og öðru gróðurfari jarðar, þ.m.t. hér á landi, t.d. með endurheimt náttúrulegra vistkerfa/ landgræðslu. Það er verkefni sem við eigum að styðja. Annað er að breyta náttúru landsins í nafni kolefnisjöfnunar með hvaða aðferðum sem er. Það er einfaldlega að kaupa sér aflátsbréf fyrir að losa koltvísýring, að keyra bíl eða fljúga. Þar á losunin sér stað samstundis en slíka losun á síðan að jafna út með skógrækt sem á sér stað inni í framtíðinni. Á 20-50 árum og enginn veit hvort tekst eða ekki. Svo má ekki gleyma að skógar eldast og hætta að binda kolefni. Eina raunverulega lausnin á núverandi skyndilosun er einfaldlega að hætta henni eða minnka hana eins mikið og hægt er.
Það hafa margir kolefnisjöfnunarskógar brunnið á síðustu árum erlendis. Hver er svo tryggingin fyrir því að akkúrat þín jöfnun hafi tekist? Hver mælir og hvernig? Er þetta allt einn stór pottur sem þú kaupir þig inn í og hefur svo ekki hugmynd um hvernig tekst til. Bara orð manna um að þetta sé voðalega sniðugt. Það hefur verið kannað erlendis hversu vel er fylgst með aðgerðum af þessu tagi, það voru ekki góðar niðurstöður. Nei notum peningana í að styrkja vernd og aukningu helstu náttúrulegu skógarsvæða heimsins, þ.m.t. hér á landi, þetta geta íslensk fyrirtæki líka gert. Styrkjum eiginlega landgræðslu á Íslandi þar sem við endurheimtum náttúruleg vistkerfi. Styðjum endurheimt votlendis, þar er komið í veg fyrir meiri losun koltvísýrings strax. Endum ekki eins og einn forseti Alþingis, ekki núverandi, en einhversstaðar á hann að hafa sagt að hann væri nú búinn að kolefnisjafna allar utalandsferðirnar mig minnir að hann hafi verið sá vinstri græni. Ekki veit ég hvernig hann fór að því miðað við vaxtarhraða trjáa. Allaveganna var það ekki hans koltvísýringur.
Nú hafa svo heyrst hugmyndir um að fyrirtæki ætli að fara að kaupa land til að rækta á skóga. Hvað tegundir ætla þessi fyrirtæki að nota í skógræktinni? Ætla fyrirtækin virkilega að breyta íslenskri náttúru til að jafna sína koltvísýrings losun? Sbr. að stærsi hluti skógræktar fer fram í gróna jörð með framandi tegundum ? Hver borgar? Á að borga skógræktarverkefni fyrirtækjanna í gegnum landsáætlanir í skógrækt sem eru borgaðar af almanna fé í gegnum Skógræktina og samninga við einstaka landeigendur? Ef það verður gert er það hrein spilling!
Landfylling í Skerjafirði
Þá er það blessaða landfyllingin í Skerjafirði. Hér ætla ég ekki að rekja mikilvægi fjörunnar sem á að eyðileggja fyrir náttúru svæðisins, það hafa þær stofnanir og félagasamtök sem komið hafa að málinu löngu gert í umsögnum um málið, sjá t.d. https://kjarninn.is/skodun/verndum-lifriki-skerjafjardar/ . Hér er á ferðinni meira af sama toga og hér að framan. Það er hugarfar, sem birtist í rituðu máli yfirvalda og ráðgjafakórsins og við þurfum enn eina ferðina að hafa verulegar áhyggjur af.
Þegar markmið þeirra flokka sem mynda meirihluta í Reykjavík í umhverfis- og náttúruverndarmálum eru skoðuð eru þau oft góðra gjalda verð. En svo er eins og menn missi sig hvað eftir annað þegar kemur að eiginlegum ákvörðunum og framkvæmdum. Það myndast einhver kúltúr ráðgjafa, gervi framfarasinna og stjórnmálamanna með gervi skilning á náttúrunni og hjörðin ræður einfaldlega ekki við að taka skynsamar ákvaranir. Nema auðvitað út frá sínum áætlunum, sínum hugmyndaheimi og sérhagsmunum og oftast þröngu sjónarhorni.
Í þessu tilfelli er verið að skipuleggja hverfi sem á að raungera en það er bara ómögulegt nema það komi til landfylling annars getur það ekki orðið eins og ,,við“ viljum hafa það. Það eru sem sagt engin náttúrulögmál sem krefjast þess að þessi landfylling verði að veruleika. Þetta eru allt saman mannanna verk. Og svo réttlætingaflaumurinn; svæðinu hefur eitthvað verið raskað og þá er allt í lagi að halda áfram, við getum búið til jafngóða fjöru, vegtengingarnar krefjast landfyllingar, þétting byggðar er nauðsynleg og í anda sjálfbærrar þróunar o.s.frv. o.s.frv. Þetta er allt saman bull sem snýst eingöngu um að réttlæta fyrirfram gefnar forsendur um byggingarmagn og það sem er ekki sagt, áætlaðan ágóða af framkvæmdunum. Sem sagt allskonar orðagjálfur, sjálfbær þróun o.s.frv., til að réttlæta eitthvað sem stenst ekki.
Fjaran er mikilvæg á þessu svæði hvort sem það eru til aðrar fjörur á Íslandi eða ekki. Það er engin lífsnauðsyn að fylla upp í fjöruna á þessu svæði, nóg hefur verið gert af því á innnesjum. Leysið málið á annan hátt. Hin eina raunverulega sjálfbæra þróun er þegar það fer saman, í hvaða framkvæmd eða aðgerð sem er, að vinna með náttúrunni. Þ.e. ekki fórna henni, uppfylla félgasleg markmið þ.e. meðal annars góða byggð í þessu tilfelli og jafnframt uppfylla efnahagsleg markmið þ.e. framkvæma verkið á hagkvæman hátt (þar undir hagstætt íbúðarverð) og án fjárhagslegs taps (sem þýðir ekki það sama og uppfylla einhver græðgissjónarmið). Í sjálfbærri þróun felst t.d. ekki að fórna náttúrunni ef við fáum æðislega gott hverfi samkvæmt sjónarmiðum einhvers. Ef þessari fjöru er fórnað á þessu svæði þá kemur hún ekkert til baka að öllu óbreyttu í jarðsögunni. Það verður því ekkert um að skila henni til næstu kynslóðar. Er þá eitthvað sem yfirvöld í Reykjavík skilja ekki í þessu samhengi eða eru þau bara svona cool að þau sjá ekkert athugavert við að fórna fjörunni. Þetta er það sama eins og græna orkan, hún er ekki alltaf græn, hvefið verður ekki byggt samkvæmt sjálfbærri þróun ef fjaran er eyðilögð. Og aftur, er eitthvað sem er erfitt að skilja í þessu samhengi eða er fólk bara svona sjálfheimskt?
Að lokum. Hvernig væri nú að fara að segja skilið við tímabil heimskulegra ,,framfara“ og snúa sér að því að reyna að minnsta kosti að gera sitt besta og koma þannig í veg fyrir augljósan og fyrirsjáanlegan skaða og læra einnig af ófyrirsjáanlegum mistökum.
Höfundur er m.a. einn af höfundum skýrslunnar ,,Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi“ sjá hér https://vedur.is/media/loftslag/Skyrsla-loftslagsbreytingar-2018-Vefur-NY.pdf
PS: Hugtakið sjálfsheimska verður skýrt nánar út síðar ef það hefur ekki þegar skýrt sig sjálft.